Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 1 . mál.


Sþ.

388. Nefndarálit



um framlög til flóabáta, fólks- og vöruflutninga.

Frá samvinnunefnd samgöngumála.



    Samvinnunefnd samgöngumála hefur að venju fjallað um erindi þau sem Alþingi hafa borist um framlög á fjárlögum til stuðnings við rekstur flóabáta vegna vöru- og fólksflutninga á einstökum svæðum. Farsvæði þessara báta er á Faxaflóa, á Breiðafirði, á Ísafjarðardjúpi og frá Þorlákshöfn til Vestmannaeyja. Enn fremur eru flutningar styrktir á Eyjafirði, til Grímseyjar og milli Mjóafjarðar og Neskaupstaðar.
    Jafnframt hefur nefndin tekið fyrir og rætt erindi sem borist hafa vegna flutninga á landi, svo sem til reksturs snjóbifreiða eða vegna mikils snjómoksturs, þar sem erfitt reynist fyrir viðkomandi byggðarlög að standa straum af þeim kostnaði sem þau verða að bera samkvæmt snjómokstursreglum Vegagerðar ríkisins. Þótt snjómokstursreglurnar hafi verið rýmkaðar á síðustu árum verða íbúar í snjóþungum héruðum fyrir verulegum kostnaði umfram aðra þegna þjóðfélagsins við að halda uppi nauðsynlegum samgöngum. Til að minnka eitthvað þennan aðstöðumun hafa verið veitt á fjárlögum hvers árs framlög til þeirra aðila sem að dómi nefndarinnar eru verst settir að þessu leyti.
    Halldór S. Kristjánsson, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu, og Guðmundur Einarsson, forstjóri Skipaútgerðar ríkisins, mættu sem fyrr á fundum nefndarinnar og veittu henni margvíslegar upplýsingar sem komu nefndinni að verulegu gagni. Færir nefndin þeim sérstakar þakkir fyrir störf þeirra í hennar þágu.
    Skal nú gerð grein fyrir einstökum þáttum tillagna nefndarinnar, sérstaklega varðandi hin stærri verkefni, þ.e. flutninga á sjó. Hvort tveggja er að til þeirra gengur mestur hluti þess fjármagns sem nefndin úthlutar og um allt það er lýtur að sjóflutningum hefur nefndin fyllri upplýsingar þó að þeir aðilar, sem styrks til landflutninga njóta, hafi einnig sent nefndinni greinargóðar upplýsingar um rekstur og annað er umsóknina snertir. Samt er í nokkrum tilvikum misbrestur á því að reikningar fylgi umsókn og voru nefndarmenn sammála um að styrkur yrði ekki greiddur á næsta ári fyrr en reikningar bærust samgönguráðuneytinu fyrir yfirstandandi ár. Við úthlutun stofnstyrkja hefur að jafnaði verið við það miðað að hann verði ekki hærri samtals en helmingur kostnaðar við kaup á vélum og tækjum.
    Að þessu sinni veitti nefndin tvo nýja stofnstyrki. Annars vegar til Auðkúlu- og Þingeyrarhrepps, en þessir hreppar hafa verið sameinaðir í eitt sveitarfélag. Styrkurinn er veittur til kaupa á snjóbíl sem halda á uppi vikulegum ferðum yfir vetrarmánuðina milli Þingeyrar, Hrafnseyrar og Mjólkár. Hins vegar er veittur styrkur til Nauteyrarhrepps til kaupa á snjóblásara.

Akraborg.


    Rekstraraðili Akraborgar, Skallagrímur hf., sækir um 41,4 millj. kr. styrk á næsta ári. Í ár er styrkurinn 19,8 millj. kr. og gekk hann að fullu til greiðslu á lánum hjá Ríkisábyrgðasjóði samkvæmt samkomulagi við hann.
    Á árinu 1989 nam hallinn á rekstri Akraborgar 21,9 millj. kr. Á árinu 1986 var hallinn 12,2 millj. kr., 779 þús. kr. á árinu 1987 og 19,6 millj. kr. á árinu 1988. Samanlagður halli síðustu fjögurra ára er því 54,5 millj. kr.          
    Rekstrartekjur Akraborgar voru 117,8 millj. kr. á árinu 1989 en voru 108 millj. kr. 1988. Hækkun milli ára er rúm 9%. Rekstrargjöld voru 118,4 millj. kr. 1989 en 106,8 millj. kr. 1988. Gjöldin hækkuðu því um 10,9%.
    Samkvæmt efnahagsreikningi í árslok er eigið fé fyrirtækisins neikvætt um 100,8 millj. kr. Eiginfjárstaðan versnaði um 40,7 millj. kr. á árinu. Skýringin á þessu er m.a. sú að styrkurinn nægði ekki til greiðslu afborgana og vaxta fyrirtækisins hjá Ríkisábyrgðasjóði eins og stjórnendur fyrirtækisins fóru fram á í umsókn sinni.
    Í lok ágúst sl. var hagnaður á rekstri Akraborgar 3,5 millj. kr. eftir að búið var að taka tillit til fjármunatekna og fjármagnsgjalda. Til samanburðar var halli fyrstu níu mánaða ársins 1989 7,5 millj. kr.
    Samkvæmt yfirliti um greiðslubyrði afborgana og vaxta af langtímalánum Akraborgar falla til greiðslu hjá Ríkisábyrgðasjóði 41,4 millj. kr. á næsta ári (gengi 2. október 1990).
    Hér fara á eftir upplýsingar um flutninga Akraborgar janúar til október síðustu fjögur árin:


    
1987
1988 1989 1990


Bifreiðar:
67.755
64.342 59.634 59.386
Þar af flutningabílar:
6.910
6.865 6.189 6.093
„Gangandi farþegar“:
60.873
60.586 58.074 58.449

    Samkvæmt þessu yfirliti heldur bílum áfram að fækka og nemur fækkunin frá 1987 8.369 bílum eða um 12,4%. Á árinu 1989 var í fyrsta skipti nokkur fækkun á „gangandi farþegum“ milli ára.
    Akraborgin fór 12 færri ferðir í ár (janúar til október) en á sama tíma í fyrra og flutti að meðaltali álíka fjölda bíla í hverri ferð.

Baldur.


    Flóabáturinn Baldur hf. sækir um 32,3 millj. kr. styrk á næsta ári. Í ár er styrkurinn 21,8 millj. kr.
    Samkvæmt áætlun rekstraraðila bátsins um starfrækslu hans á þessu ári er gert ráð fyrir að heildargjöld Baldurs verði 61,1 millj. kr. og tekjur 35,8 millj. kr. Ríkisframlagið verður 21,8 millj. kr. þannig að samkvæmt þessu má reikna með um 3,5 millj. kr. halla á rekstri ferjunnar í ár og eru þá ekki taldar með afskriftir og fjármagnskostnaður vegna nýju ferjunnar sem afhent var í apríl sl.
    Á árinu 1989 var hallinn á rekstri Baldurs 5,6 millj. kr. án afskrifta, en var á árinu 1988 1,7 millj. kr., einnig án afskrifta. Undanfarin þrjú ár, að yfirstandandi ári meðtöldu, má gera ráð fyrir að eigið fé fyrirtækisins rýrni um a.m.k. 10,8 millj. kr.
    Hinn 4. apríl 1990 afhenti Skipasmíðastöð Þorgeirs & Ellerts hf. á Akranesi stjórn Baldurs hf. nýju Breiðafjarðarferjuna og hóf hún strax rekstur. Samkvæmt svari samgönguráðherra við fyrirspurn á Alþingi í nóvember sl. var heildarkostnaður við smíði ferjunnar orðinn 414 millj. kr. og tekið fram að smíði hennar væri ekki að fullu lokið. Viðbótarkostnaður er áætlaður 10 12 millj. kr. og er gert ráð fyrir að leita heimildar á lánsfjárlögum fyrir árið 1991 til að fjármagna hann.
    Um rekstraráætlun ferjunnar fyrir næsta ár er það að segja að útgerðaraðili gefur sér þá forsendu að launakostnaður hækki um 4,2% frá árinu í ár. Hækkun heildargjalda er áætluð um 15,5%. Athygli vekur veruleg hækkun á olíu, en áætlað er að olíukostnaður verði á næsta ári um 17,6 millj. kr. Bæði er um magnaukningu að ræða, m.a. vegna þess að skipið er um 30% þyngra en reiknað var með, svo og vegna verulegrar hækkunar á olíu vegna ástandsins við Persaflóa. Gamli Baldur eyddi um 80 lítrum á klst. en áætlað er að nýja ferjan eyði um 200 lítrum á klst. Ef litið er á hlutfall olíukostnaðar af rekstrartekjum ferjunnar kemur eftirfarandi í ljós (árin 1988 1991):

    
1988
17,0%
    
1989
17,0%
    
1990
32,1% (áætlun)
    
1991
43,9% (áætlun)

    Útgerðaraðili áætlar að tekjur aukist um 7% milli áranna 1990 og 1991. Forsendur hans fyrir yfirstandandi ár voru að flutningur bifreiða fari úr 1.200 1.500 bílum í 4.000 bíla, en útlit er fyrir að fluttir verði um 6.000 bílar. Í áætlun fyrirtækisins varðandi farþega stóð að fluttir yrðu um 6.000 farþegar yfir Breiðafjörðinn og 2.000 farþegar til Flateyjar eða alls 8.000 farþegar. Nú stefnir í að 13.900 farþegar verði fluttir yfir fjörðinn og 5.800 til Flateyjar, samtals 19.700 á þessu ári. Undanfarin ár hefur gamli Baldur flutt 5.000 6.000 farþega á ári.
    Samkvæmt upplýsingum frá Endurlánum ríkissjóðs hafa verið tekin þrjú lán vegna smíðinnar, sem standa alls miðað við gengi 6. desember 1990 í 409,7 millj. kr. Af þeirri upphæð eru áfallnir vextir 71,2 millj. kr.
    

Fagranes.


    Eins og mörg undanfarin ár fylgir umsókn rekstraraðila bátsins greinargott yfirlit um rekstur hans út þetta ár.
    Í bréfi framkvæmdastjóra fyrirtækisins til samvinnunefndar samgöngumála, dags. 29. nóvember 1990, er tekið fram að við gerð rekstraráætlunar fyrir árið 1990 var gert ráð fyrir 22,6% hækkun gjaldaliða milli ára, en hækkunin varð 12,4%. Gert var ráð fyrir 23% hækkun tekjuliða, en hækkunin varð um 16%.
    Reiknað er með lítils háttar tekjuafgangi í rekstri fyrirtækisins á yfirstandandi ári þegar búið er að taka tillit til 16,2 millj. kr. ríkisframlags.
    Báturinn flutti fyrstu 10 mánuði þessa árs 808 tonn af vörum, 167 þús. lítra af mjólk, 2.228 farþega og 113 bíla í 139 ferðum.
    Á sama tímabili 1989 flutti hann 1.003 tonn af vörum, 171 þús. lítra af mjólk, 2.693 farþega og 169 bíla í 139 ferðum.
    Áætlun fyrirtækisins fyrir árið 1991 er í hefðbundnum stíl. Útgerðaraðili gefur sér þá forsendu að gjöld hækki að meðaltali um 9,6% frá árinu í ár og að þau verði 26,4 millj. kr. á næsta ári. Tekjur eru taldar aukast um 9% milli ára og að þær verði 8,8 millj. kr. Til að jöfnuður náist þarf ríkisframlagið að vera 17,6 millj. kr., samkvæmt umsókn útgerðar bátsins. Ef þetta ríkisframlag yrði samþykkt jafngildir það 66,7% af gjöldum bátsins. Til samanburðar nam ríkisstyrkur 65% af gjöldum 1989, 70% 1988, 68,8% af gjöldum 1987 og 73,0% 1986.
    Með bréfi dags. 29. október 1990 skipaði samgönguráðherra nefnd til að undirbúa endurnýjun á m/s Fagranesi. Í bréfinu segir m.a. að hún skuli í störfum sínum hafa samráð við starfshóp sem skipaður var sama dag af samgönguráðherra til að endurskoða áform um framkvæmdir og fjárfestingar opinberra aðila og fyrirkomulag opinberrar þjónustu á því svæði sem jarðgangagerð hefur bein áhrif á.
    Í nefndinni eiga sæti tveir fulltrúar frá Djúpbátnum hf., einn frá fjárveitinganefnd Alþingis og einn frá samgönguráðuneyti og er hann formaður hennar. Ráðinn hefur verið skipatæknifræðingur nefndinni til ráðuneytis.
    Nefndin hefur hafið störf og kannar nú möguleika á því að kaupa notað skip.

Hríseyjarferja og Eyjafjarðarferja.


    Hríseyjarhreppur, sem er rekstraraðili Sævars, sækir um 9,0 millj. kr. rekstrarstyrk á næsta ári. Greiddur styrkur frá ríki í ár er 4,0 millj. kr. sem er 2,0 af geymdu fé og 2,0 styrkur á fjárlögum ársins.
    Í greinargerð rekstraraðila kemur fram að tap á rekstri Hríseyjarferju í ár verður um 1,0 millj. kr. Á árinu 1989 var tap á rekstri ferjunnar 2,0 millj. kr. Þess er einnig getið að á árinu 1988 sýndu reikningar fyrirtækisins halla, en þá voru afskrifaðar tapaðar kröfur vegna Flóabátsins Drangs hf. og Fóðurstöðvarinnar á Dalvík, samtals 2,3 millj. kr.
    Umsóknin er byggð á því að halli þessara ára verði greiddur, svo og þörf fyrir styrk samkvæmt rekstraráætlun 1991.
    Rekstur Hríseyjarferjunnar Sævars til nóvemberloka 1990 sýndi halla að fjárhæð 1.037 þús. kr., og er þá búið að taka tillit til 4,0 millj. kr. styrks út ríkissjóði. Heildar-gjöld fyrirtækisins þetta tímabil námu 13,3 millj. kr. Tekjur ferjunnar, þ.e. flutningstekjur, námu 8,2 millj. kr. eða 62% heildargjalda.
    Eyjafarðarferjan, Sæfari, hóf rekstur á vordögum 1990, nánar tiltekið 21. apríl 1990. Um rekstur skipsins á þessu ári segir svo í greinargerð rekstraraðila, Hríseyjarhrepps:
    „Rekstur Sæfara er lítt reyndur enn þá. Skipið var of seint tilbúið til farþegaflutninga til að hægt væri að virkja ferðamannatímann sl. sumar sem skyldi. Einnig var það of seint á ferðinni til að ná fiskflutningum á vertíðinni sl. vor og vöruflutningum meðan ófærð í landi var mest. Af þessum sökum er erfitt að gera rekstraráætlun, var þó reynt að vanda til hennar“.
    Sótt er um rekstrarstyrk að fjárhæð 19.000.000 kr. á næsta ári. Til rekstrarins á árinu er áætlað að fari 15.500.000 kr. og til að greiða halla þessa árs 3.500.000 kr. Rekstraraðili gerir ráð fyrir að gjöld ferjunnar verði um 35,9 millj. kr. á næsta ári.
    Jafnframt er sótt um stofnstyrk að fjárhæð 6.000.000 kr. til að greiða áfallinn kostnað vegna breytinga á skipinu.

Mjóafjarðarbátur.


    Sótt er um styrk vegna áætlunarferða milli Mjóafjarðar, Dalatanga og Neskaupstaðar. Fyrirkomulag ferða er með sama sniði og áður. Farnar eru tvær ferðir í viku frá Mjóafirði til Neskaupstaðar með viðdvöl þar og fara 10 12 klst. í hverja ferð. Þá er farið að Dalatanga jafnoft. Farið er á milli Dalatanga og Mjóafjarðar á landi á sumrin og þegar því verður við komið á veturna.
    Vegna áætlunarferðanna til Dalatanga hefur reynst nauðsynlegt að hafa yfir að ráða snjósleða og Subaru - bifreið og einnig Zodiak - gúmmíbát því að þegar landleiðin er ófær er farið á bátnum næsta dag og tekið land í gúmmíbátnum. Eru þær ferðir tímafrekar og bindandi þar sem oft þarf að bíða færis vegna erfiðra lendingarskilyrða á Dalatanga. Hefur það í för með sér allmikinn aukakostnað og tímatap.
    Þessi bátur, sem keyptur var á árinu 1978, er að sögn heimamanna eini möguleikinn til þess að hafa samband við Neskaupstað þar sem öll verslunarviðskipti fyrir þennan hrepp fara fram.
    Rekstraraðili Mjóafjarðarbáts, Jóhann Egilsson, sækir um rekstrarstyrk á næsta ári að fjárhæð 3.600.000 kr.
    Jafnframt sækir Jóhann áfram um stofnstyrk að fjárhæð 1,0 millj. kr. til að kaupa hlut fyrri rekstraraðila í bátnum.

Herjólfur.


    Á árinu 1989 var tap á rekstri Herjólfs um 22,0 millj. kr., og er það án ríkisframlags (29,0 millj. kr.), verðbreytingafærslna, afskrifta og óreglulegra liða. Samkvæmt efnahagsreikningi í árslok er eigið fé fyrirtækisins jákvætt um 73,7 millj. kr. og hafði það þá aukist um 22,3 millj. kr. á árinu. Skammtímaskuldir námu 25,8 millj. kr. í lok síðasta árs og höfðu þær þá hækkað um 3,8 millj. kr. frá árinu áður. Veltufjárhlutfallið er 0,63 sem er sama hlutfall og var í lok ársins 1988.
    Í lok september sl. var tap á rekstri Herjólfs 21,5 millj. kr. og er þá ekki tekið tillit til ríkisframlags og afskrifta. Í lok þessa árs er reiknað með að gjöld án afskrifta verði 167,1 millj. kr. og tekjur 123,0 millj. kr. Samkvæmt því áætlar rekstraraðili að tap á rekstri Herjólfs verði tæpar 44,1 millj. kr. í lok þessa árs án ríkisframlags, verðbreytingafærslna, afskrifta, verðbóta og óreglulegra rekstrarliða.
    Hér er um mun verri útkomu að ræða en var á síðasta ári og eru skýringar rekstraraðila einkum þær að flutningar hafa dregist verulega saman og þá sér í lagi fólksflutningar, sbr. töflu (áætlun fyrir desember 1990):

    
1988
1989 1990


Vörur:
12.020
14.246 12.770
Farþegar:
49.940
51.414 46.000
Bílar:
11.840
12.348 11.200

    Þetta kemur fram í því að tekjur af rekstri Herjólfs dragast saman á milli áranna og heildartekjur fyrirtækisins minnka um 2,9 millj. kr. eða um 2,3% frá árinu 1989, þrátt fyrir 15% hækkun fargjalda 1. febrúar sl. og hækkun farmgjalda um rúm 7%.
    Gjöld og tekjur fyrirtækisins á næsta ári eru settar fram á áætluðu meðalverðlagi ársins 1991 með framreikningi á niðurstöðutölum ársins 1990, en auk þess er tekið tillit til „viðbótarkostnaðar vegna endurnýjunar og aukins viðhalds á skipinu aldursins vegna svo og á flutningatækjum félagsins“, segir í greinargerð forsvarsmanna fyrirtækisins.
    Greint er frá því að byggt sé á forsendum fjárlaga varðandi gjöld.
    Gjöld hækka samkvæmt framanrituðu um 8% og tekjur um sömu hundraðstölu. Hallinn á rekstrinum hækkar úr 44,1 millj. kr. 1990 í 47,6 millj. kr. 1991 (án afskrifta og ríkisframlags).
    Eins og fram kom á fundum samvinnunefndar samgöngumála við úthlutun styrkja fyrir yfirstandandi ár skilaði sérstök nefnd um smíði nýrrar ferju til siglinga milli Vestmannaeyjar og lands skýrslu til samgönguráðherra í nóvember 1989.
    Ástæða þessarar nefndarskipunar var sú að í maí 1989 ákváðu fjármálaráðherra og samgönguráðherra að heimila stjórn Herjólfs að leita eftir verðtilboðum í smíði ferju samkvæmt teikningu sem stjórnin hafði látið gera um 79 m langa ferju er gæti flutt allt að 460 farþega og milli 70 80 bíla. Verkefni nefndarinnar var að fylgjast með verðkönnuninni og hafa samráð við stjórn Herjólfs um framkvæmd hennar. Jafnframt fékk nefndin þau fyrirmæli að kanna markað fyrir notuð skip sem hentað gætu til siglinga á farsvæði Herjólfs.
    Verðtilboð voru opnuð í byrjun október 1989. Tuttugu og eitt tilboð barst og voru sautján samkvæmt útboðslýsingu. Þrjú tilboðanna reyndust svokölluð frávikstilboð, þ.e. boðið var upp á að senda inn verðtilboð samkvæmt annarri teikningu.
    Eitt frávikstilboðanna var frá Simek í Noregi. Það er 66 m ferja sem til stóð að smíða fyrir aðila í Norður - Noregi til siglinga fyrir opnu hafi milli Bodö og eyjarinnar Röst. Vegalengd er svipuð og milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja.
    Nefndin mælti m.a. með því í greinargerð sinni til ráðherra að þessi kostur yrði skoðaður gaumgæfilega áður en til ákvörðunar kæmi um annað skip fyrir Herjólf hf.
    Í byrjun þessa árs fjallaði ríkisstjórnin um þetta álit nefndarinnar og samþykkti eftirfarandi tillögu frá samgönguráðherra:
     Að ríkisstjórnin taki nú þegar ákvörðun um að stefnt skuli að smíði ferju fyrir Vestmannaeyjar.
     Að umrædd ferja verði 68 70 m að lengd.
     Að ríkisstjórnin heimili að aflað verði verðhugmynda frá innlendum skipasmíðastöðvum í 68 70 m skip á grundvelli lauslegrar lýsingar á skipinu. Til álita komi að nýta fyrirliggjandi hönnun og teikningar, sem Herjólfur hf. hefur þegar eignast, með þeirri breytingu að þær geti átt við 68 70 m skip.
     Að fengnum þessum verðhugmyndum verði þær bornar saman við þau verð frá erlendu skipasmíðastöðvunum, sem aflað var fyrr á þessu ári (1989), eftir því sem hægt er, áður en endanleg ákvörðun verður tekin um smíðina.
    Skipuð var samráðsnefnd um framkvæmd þessara tillagna og skilaði hún skýrslu til samgönguráðherra og ríkisstjórnar, ásamt tillögum með bréfi, dags. 18. september sl. Hún lagði til við ráðherra að teknar yrðu upp viðræður við þær skipasmíðastöðvar er skiluðu hagstæðustu tilboðum í skip af þessari stærð samkvæmt útboði, en tilboðin voru opnuð í júlí 1990. Að þeim viðræðum loknum yrði lögð fram tillaga um hvaða skip yrði smíðað og við hvaða skipasmíðastöð skuli semja um smíðina.
    Samráðsnefndin lagði jafnframt til að skipuð yrði sérstök smíðanefnd til að annast samningagerð um smíði skipsins og var það gert með bréfi, dags. 4. október sl. Formaður hennar er Ragnar Óskarsson, bæjarfulltrúi, formaður stjórnar Herjólfs hf.

Flutningar til Grímseyjar.


    Fyrir nokkrum árum hætti Drangur ferðum sínum um Eyjafjörð og til Grímseyjar. Til þess að sinna þeim flutningaverkefnum, sem flóabáturinn annaðist, var samið við Flugfélag Norðurlands hf. um að flytja vörur til Grímseyjar og jafnframt hefur Skipaútgerð ríkisins séð um flutning á þungavöru til eyjarinnar og fisk frá henni.
    Eins og fram kemur hér að framan þar sem rætt er um Hríseyjarferju og Eyjafjarðarferju hóf ný ferja siglingar um Eyjafjörð frá landi til Hríseyjar og Grímseyjar fyrr á þessu ári. Frá miðju ári 1990 féllu niður styrkir til Flugfélags Norðurlands hf. og Skipaútgerðar ríkisins og eftirstöðvar fjárveitingar samkvæmt þessum lið runnu til Eyjafjarðarferju.
    Nú hefur Flugfélag Norðurlands hf. sótt um styrk vegna flutninga til Grímseyjar og samþykkti nefndin að úthluta félaginu 950.000 kr. sem er svipuð fjárhæð, eftir að búið er að taka tillit til verðlagshækkana og flugfélagið fékk áður en Drangur hætti starfsemi á árinu 1985.
    Málefni stærri ferja og flóabáta voru mikið rædd á fundum nefndarinnar, einkum í undirnefnd. Þar sem verulegar fjárfestingar hafa þegar verið ákveðnar í smíði og kaup á ferjum og flóabátum, sem skipta munu hundruðum milljóna króna, taldi nefndin brýnt að hún fjallaði mun meira um mál er snerta þessa báta og ferjur á breiðum grundvelli. Nefndin ákvað því að taka málefni þeirra til sérstakrar athugunar og umfjöllunar í byrjun næsta árs.
    Málefni annarra báta verða ekki rakin hér, enda er þar um smáar upphæðir að ræða.
    Ekki verða heldur tilgreindar sérstakar umsóknir um fjárveitingar til vetrarsamgangna á landi. Ítarlega var fjallað um hverja umsókn og var samstaða í nefndinni um hverja fjárveitingu.
    Um lið nr. 58, óráðstafað, er það að segja að hann er fyrst og fremst hugsaður sem sjóður sem hægt yrði að grípa til þegar samgöngur teppast og notast þarf við dýrari flutningstæki. Slíkir flutningar yrðu síðan greiddir samkvæmt reikningi að höfðu samráði við formenn samgöngunefnda Alþingis.
    Að þessu sinni var framlag samkvæmt þessum lið hækkað nokkuð umfram verðlagshækkanir og er skýringin sú að nefndin taldi brýnt, samkvæmt fyrirliggjandi staðreyndum, að styrkja loftflutninga til einangraðra staða á Vestfjörðum og Austfjörðum. Greiðslur fari fram í samráði við formenn samgöngunefndanna.
    Samvinnunefnd samgöngumála leggur til að á fjárlögum 1991 verði veittar samtals 173.230.000 kr., sem lagt er til á sérstöku þingskjali, í staðinn fyrir 128.100.000 kr. á þessu ári samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum.

Alþingi, 19. des. 1990.



Karvel Pálmason,


form. Ed.-nefndar, frsm.

Hjörleifur Guttormsson,


form. Nd.-nefndar.

Skúli Alexandersson,


fundaskr. Ed.-nefndar.


Guðni Ágústsson,


fundaskr. Nd.-nefndar.

Stefán Guðmundsson.

Árni Gunnarsson.



Egill Jónsson.

Friðjón Þórðarson.

Halldór Blöndal.


Jón Helgason.

Kristín Einarsdóttir.

Matthías Á. Mathiesen.


Ólafur Þ. Þórðarson.

Þorv. Garðar Kristjánsson.